Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 28/2008 - Úrskurður

 

Miðvikudaginn 28. maí 2008

 

 

 

26/2008

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi dags. 21. janúar 2008 kærir B., f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun um sjúklingatryggingu.

 

Óskað er eftir því að A verði ákvarðaður réttur til sjúklingatryggingar í samræmi við lög nr. 111/2000.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi datt þann X með þeim afleiðingum að hann lærbrotnaði upp við mjaðmarkúlu vinstra megin. Þegar lagfæra átti brotið veikist kærandi alvarlega fyrir hjarta og var þá einungis hægt að gera að brotinu til bráðabirgða. Aðgerðin var síðan gerð að beiðni aðstandenda kæranda og hans sjálfs X þar sem kærandi hafði mikla verki frá mjöðm. Stuttu eftir aðgerðina kom fram svokallaður fellifótur það er lömun á réttivöðvum um vinstri ökkla.

 

Í læknabréfi frá C dagsettu 4. júní 2007 kemur eftirfarandi meðal annars fram:

„Er úthaldslaus, með minnkaða hreyfifærni og ekki alveg sjálfbjarga. Kemur hér ásamt eiginkonu. Byrjaði á því að fara í carpal tunnel aðgerð vi. megin X. Þegar komið var heim eftir aðgerðina þá leið honum eitthvað illa, datt og hlaut collum brot á vi. femur X. Var negldur og í framhaldi af því prothesuaðgerð og upp úr því fékk hann algjöran drop foot vi. megin svo hann þarf að nota spelku. Einnig verið með kransæðaþrengsli, hjartabilun, asthma... Einnig hefur hann verið með stækkun á blöðruhálskirtli o. fl. Annað í heilsufari er ischemiskur hjartasjúkdómur, fibrillation og er með gangráð, er á Kovar. Er með COPD, löng reykingasaga. Fær þvagsýrugigtarköst, slitgigt í höndum og hnjám og stækkun á blöðruhálskirtli. Carpal tunnel syndrome. Hann með hjartabilun, blæðingu eftir bæklunaraðgerð á vi. mjöðm og hematom, sem hefur valdið compression og drop fæti. Einnig í sögu lungnasýkingar og samfara þeim hjartabilanir, er þó án súrefnis.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

 

,,Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 1. nóvember 2007 kemur 4. tl. 2. gr.laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu til skoðunar við ákvörðun bóta, en ekki er talið að aðrir töluliðir 2. gr. laganna komi til skoðunar. Á þetta er fallist með stofnuninni. Svo að tjón falli undir ákvæðið þarf fylgikvilli að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur.

 

   Tryggingastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að tjón kæranda uppfylli það skilyrði ákvæðisins að um sjaldgæfan fylgikvilla sé að ræða. Fellifótur í kjölfar mjaðmaliðsaðgerðar á sér aðeins stað í um 1-3% tilvika. Samkvæmt Tryggingastofnun þarf fylgikvilli að vera á bilinu 1-2% svo hann teljist vera sjaldgæfur í skilningi 4. tl. Hins vegar virðist Tryggingastofnun ekki fallast á það að um alvarlegan fylgikvilla sé að ræða. Rökstuðningur stofnunarinnar fyrir þessu er að mínu mati fjarri lagi og ekki við hæfi að opinber stofnun beri hann fyrir sig enda er í raun sagt að þrátt fyrir að kærandi hafi hlotið fellifót sé hann betur settur nú en ef hann hefði ekki farið í mjaðmaliðsaðgerðina. Ekki er unnt að fallast á slíkan rökstuðning í ljósi markmiðs slíkra aðgerða og hlutverks heilbrigðisþjónustunnar.

     Markmið læknisaðgerða hlýtur ávallt að vera það að sjúklingur nái fullum bata. Bati af einu meini á ekki að vera á kostnað annars. Þannig er ekki hægt að réttlæta þau mistök sem áttu sér stað við aðgerð á kæranda með því að hann sé betur settur en áður sem er auk þess rangt og ósannað...

 

   Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins er ekki að finna heimild til handa Tryggingastofnunar til slíks mats á því hvort sjúklingur sé betur eða verr staddur eftir aðgerð. Skilyrði ákvæðisins [4.tl. 2. gr.] eru skýr, þ.e. að um alvarlegan og sjaldgæfan fylgikvilla sé að ræða. Ber sérstaklega að geta þess að undirrituð hefur farið í gegnum öll þau gögn sem Tryggingastofnun byggði ákvörðun sína á og hvergi kemur nokkuð það fram sem stofnunin byggir niðurstöðu sína á. Þvert á móti kemur fram í þessum gögnum að blæðing hafi átt sér stað í aðgerðinni og eftir hana sem hafði í för með sér fellifót sbr. t.d. útskriftarnótu dags. 4. maí 2007 og læknabréf dags. 4. júní 2007. Þess ber einnig að geta að ákvörðunin virðist byggja á því hvort spurning hafi verið um hvort framkvæma ætti aðgerðina. Ljóst er að um áverka var að ræða sem þörfnuðust aðgerðar til að hægt væri að lagfæra þá....

 

   Ljóst er að um alvarlegan fylgikvilla er að ræða sem haft hefur afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir kæranda. Kærandi er lamaður fyrir neðan ökkla á vinstra fæti. Engin von er um að sú lömun komi til með að ganga til baka samkvæmt mati lækna... Áður en kærandi mjaðmabrotnaði var hann heilsuhraustur og hress. Aðaláhugamál hans var golf og lék hann það flesta daga vikunnar. Hann bjó í eigin húsnæði og sá um viðhald á því og var fullfær um að aka bifreið. Eftir slysið var lífi hans, og hans nánustu, algjörlega raskað. Hann hefur dvalist langtímum á spítölum, þurfti að selja hús sitt og flytjast í þjónustuíbúð, hann getur lítið hreyft sig án aðstoðar svo fátt eitt sé nefnt. Þannig hefur lömunin haft mikil áhrif á bæði andlega og líkamlega líðan kæranda.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 24. janúar 2008. Barst greinargerð dags. 5. febrúar 2008.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir meðal annars:

 

,,Við mat á því hvort heilsutjón fellur undir 4. tl. 2. gr. ber að líta til þess hvort misvægi er milli annars vegar þess hversu tjón er mikið og hins vegar hve veikindi sjúklings voru alvarleg og þeirra afleiðinga af rannsókn eða meðferð sem almennt mátti búast við. Fylgikvillinn þarf því bæði að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur (minna en 1-2% tilvika) til að réttlætanlegt sé að fella hann undir 4. tl. Því meiri sem hættan er á fylgikvilla eftir eðlilega meðferð þeim mun meira tjón verður sjúklingur að bera bótalaust. Einnig á að taka mið af eðli veikinda sjúklings og því hversu mikil þau eru svo og almennu heilbrigðisástandi hans. Til þess að fylgikvilli teljist nægilega alvarlegur er miðað við að afleiðingar fylgikvillans séu meiri og alvarlegri en búast hefði mátt við að orðið hefði ef grunnsjúkdómur sjúklings hefði ekki verið meðhöndlaður. Ef augljós hætta er á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi ef sjúkdómurinn er látinn afskiptalaus verða menn að sætta sig við verulega áhættu á alvarlegum eftirköstum meðferðar (fylgikvillum). Minni háttar fylgikvilla verða menn einnig að sætta sig við ef unnið er að lækningu sjúkdóms sem ekki er alveg meinalaus. Til þess að bótaskylda sé fyrir hendi þarf sjúklingur að vera talsvert verr settur eftir sjúkdómsmeðferð en fyrir hana.

 

   Fyrir liggur að kærandi fékk fellifót um vinstri ökkla eftir mjaðmarliðskiptiaðgerð á Landspítala þann X. Af fyrirliggjandi sjúkragögnum verður ekki ráðið að meðferð hafi á einhvern hátt verið ábótavant. Niðurstaða Tryggingastofnunar var því sú að um fylgikvilla aðgerðar væri að ræða...

 

   Til þess að hægt sé að fella fylgikvilla undir 4. tl. 2. gr. þarf hann bæði að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur (minna en 1-2% tilvika). Þegar verið er að meta alvarleika fylgikvilla þarf misræmið að felast í því að viðkomandi hefði verið betur settur ef meðhöndlun hefði ekki verið veitt. Hvað varðar algjöran fellifót eftir mjaðmarliðsaðgerð má búast við slíkum fylgikvilla í um 1-3% tilvika...

 

   Að teknu tilliti til þess bata sem náðst hefur með aðgerðinni, miðað við ástand og heilsufar kæranda almennt fyrir aðgerðina telur Tryggingastofnun að kærandi sé betur settur eftir aðgerðina, en fyrir hana, auk þess sem fylgikvilli kæranda er á mörkum þess að teljast nægjanlega sjaldgæfur. Til þess að bótaskylda sé fyrir hendi þarf sjúklingur að vera talsvert verr settur eftir sjúkdómsmeðferð en fyrir hana, auk þess sem hann þarf að uppfylla bæði alvarleika og sjaldgæfniskilyrði ákvæðisins. Þegar litið er til þessa er ljóst að fylgikvilli sá er kærandi varð fyrir í kjölfar mjaðmarliðskiptiaðgerðar telst hvorki nógu alvalegur né sjaldgæfur svo hægt sé að fella hann undir 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 7. febrúar 2008 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Frekari gögn bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dags. 9. mars 2008, þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

 

„Ljóst er að um sjaldgæfan fylgikvilla er að ræða og því hlítur réttur kæranda til bóta að vera rúmur. Afleiðingar fylgikvillans eru jafnframt mjög alvarlegar og miklar. Kærandi er lamaður fyrir neðan ökkla á vinstra fæti og engin von er um að sú lömun gangi til baka. Þvert á móti fer ástand kæranda versnandi. Hefur hann ítrekað dottið vegna lömunarinnar, nú síðast með þeim afleiðingum að hann hefur þurft að liggja á sjúkrahúsi undanfarnar þrjár til fjórar vikur. Það er ekki aðeins líkamleg heilsa kæranda sem hefur farið versnandi heldur einnig andleg.“

 

Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríksins þann 14. mars 2008. Athugasemdir við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins bárust með bréfi dagsettu 31. mars 2008. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi dagsettu 2. apríl 2008. Athugasemdir við viðbótargreinargerðina bárust með bréfi dagsettu 7. apríl 2008.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Málið varðar synjun Tryggingastofnuar ríkisins um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

 

Greint er frá því í rökstuðningi með kæru að kærandi hafi fengið svonefndan fellifót í kjölfar mjaðmarliðsaðgerðar en viðurkennt sé að algjör fellifótur sé mjög sjaldgæfur fylgikvilli eftir slíka aðgerð og eigi sér aðeins stað í 1-3% tilvika. Verði því að telja að um alvarlegan og sjaldgæfan fylgikvilla sé að ræða sem hafi haft veruleg áhrif á kæranda og ósanngjarnt sé að hann beri bótalaust. Afleiðingar fylgikvillans séu alvarlegar og miklar, þar sem kærandi sé lamaður fyrir neðan ökkla á vinstri fæti og engin von um að sú lömun gangi til baka, þvert á móti fari ástand hans versnandi. Hann hafi ítrekað dottið vegna lömunarinnar, nú síðast með þeim afleiðingum að hann þurfti að liggja á sjúkrahúsi í þrjár til fjórar vikur. Það sé ekki aðeins líkamleg heilsa kæranda sem hafi farið versnandi heldur einnig andleg.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar dagsettri 5. febrúar 2008 segir að kærandi hafi fengið fellifót um vinstri ökkla eftir mjaðmarliðskiptiaðgerð á Landspítala þann X. Af fyrirliggjandi sjúkragögnum verði ekki ráðið að meðferð hafi á einhvern hátt verið ábótavant. Eftir aðgerð muni kærandi vera verkjalaust frá mjöðm og megi því segja að aðgerðin hafi tekist vel að því leyti. Til þess að bótaskylda sé fyrir hendi þurfi sjúklingur að vera talsvert verr settur eftir sjúkdómsmeðferð en fyrir hana, auk þess sem hann þurfi að uppfylla bæði alvarleika og sjaldgæfniskilyrði 4. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Jafnframt er bent á að það eitt að fara í læknisaðgerð sem skili ekki þeim árangri sem að var stefnt í upphafi leiði ekki sjálfkrafa til bótaskyldu samkvæmt lögunum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu eiga sjúklingar sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklings, sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans, rétt til bóta.

 

Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þeirra atvika sem getið er í 1.-4.tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

 

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 er kveðið á um tjónsatvik sem lögin taki til:

  1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
  2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
  3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða –tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
  4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

 

Það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. En tjón sem rakið verður til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir eða slyss er ekki bótaskylt. Það er því fyrst og fremst tjón sem rakið verður til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð sem er bótaskylt.

 

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 er að finna líkindareglu sem ætlað er að auðvelda þeim sem sækir um bætur að sýna fram á orsakasamband milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar. Þannig segir: ...enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:... Þannig skal bæta tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjónið starfi af t.d. rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Þessi lögskýringasjónarmið eru áréttuð í greinargerð með lögunum.

 

Samkvæmt gögnum málsins verður talið að tjón kæranda geti einungis fallið undir 4. tölul. í 2. gr. nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, á þetta hefur kærandi fallist.

 

Fyrir liggur að kærandi gekkst undir aðgerð þann X þar sem fyrst var fjarlægður LIH-naglar án erfiðleika með sérstöku verkfærum og síðan var aðgerðin framkæmd. Naglarnir voru settir til bráðabirgða þegar ekki tókst á sínum tíma að gera mjaðmarskiptaliðaðgerðina, þar sem hjúkra þurfti kæranda vegna alvarlegra einkenna frá hjarta. Aðgerðin gekk mjög vel, röntgenmyndir sýndu góða stöðu á prothesunni og eðlilega stöð á liðnum. Fram kemur í gögnum málsins að einhver blæðing hafi orðið í og eftir aðgerð, sem þó telst eðlilegt þar sem kærandi var á blóðþynningalyfjum. Stuttu eftir aðgerðina mun kæranda hafa fengið fellifót þ.e. lömun á réttivöðvum um vinstri ökklann.

 

Í komunótu/dagnótu D læknis dags. X segir meðal annars:

„Hann hefur dvalið hér frá X. Hann fór í aðgerð á hægri hendi vegna carpal tunnel syndrome og eftir það datt hann og mjaðmarbrotnaði vinstra megin og þurfti að fara í aðgerð og í framhaldinu fékk hann kransæðastíflu og hjartabilun og var mikið veikur. Kom síðan hingað til frekari meðferðar og endurhæfingar. Hann hefur mikið kvartað undan verkjum í vinstri mjöðm og einnig í vinstra hné. Teknar myndir af mjöðminni sem sýndu eðlilega legu á broti og eðlilegan gróanda. Röntgenmynd af vinstra hné sýnir mikið slit. Hann kvartaði um útbunganir í nárum og E taldi að ekki væri um kviðslit að ræða... Það er búið að stoppa mikið af blóðþrýstingslækkandi lyfjum og hjartabilunarmeðferð þrátt fyrir það er hann ennþá orthostatiskur. Áfram er verið að fylgjast með blóðþrýstingi.“

 

Í komunótu/dagnótu F læknis dags. X segir meðal annars:

„Til stóð að sj. færi í protesuaðg. X hjá G, en f. nokkrum dögum, versnaði ástand sj. þannig að ákv. var að fresta aðg. Sj. fór í ruglástand, ofskynjanir og ranghugmyndir, auk þess sem tal varð óskýrara. Hugsanlega tengsl v. aukna verkjalyfjagjöf og Sobril. Hjartabilaðist í kjölfarið. Er nú heldur skárri. Virðist vera m. dál. expressíva dysfasiu og auk þess áfram dál. rugl. Fékk Lasix iv. í gær sem hann svaraði vel. Slæmur af verkjum frá mjöm og þrátt f. að sj. sé ekki optimal kandídat í aðg., þá er rétt að gera m.a. hana í pallíatívum tilgangi að mati undirritaðs og sj. og aðst. hafa einnig tekið upplýsta afstöðu og vilja aðg. Búið er að setja nýjan aðgerðardag X og sj. þarf þá að fara til LSH deginum áður...“

 

Samkvæmt sjúkraskrá þann X fór kærandi í mjaðmarprothesuaðgerð á LSH í Fossvogi þann X Síðan segir: „Hafði þá farið í perop athugun hjá hjartalækni og lungnalækni. Sést hafði plerura-baselleraður hnútur í thorax á rtg. mynd en ákveðið var að bíða með uppvinnslu á honum og gera aðgerðina. Aðgerðin gekk vel og blæddi að því er sagt var um 200 ml í aðgerðinni. Sjúklingur var svolítið hypotensivur en aðgerðin var gerð í spinal...“

 

Í útskriftanótu F dags. 4. maí 2007 segir meðal annars:

„Fór því í aðg. á LSH í Fossvogi X þar sem sett var bipolar mjaðmarprothesa vi. megin. Perioperativt sennil. TIA m. þvöglumælgi og rugli en jafnaði sig. Fékk Klexane thromboprophylaxis eftir aðgerð eins og venja er. Fluttur aftur á sjúkrahúsið í H X. Fljótlega eftir komu kom út mikið mar á vi. mjöðm og í síðunni sem breyddist út niður allan fótlegginn. Klexane var seponerað. Sj. féll í hemóglóbíni og þurfti blóðgjöf. Í kjölfar þess drop foot vinstra megin og atrofia á kálfa sem hefur ekki jafnað sig nema að örlitlu leyti og núverandi ástand væntanlega varanlegt. Líklegast er talið að þessi áverki á ischias taugina með peroneuslömun sé vegna compressionar af völdum blæðingar í kjölfar mjaðmaraðgerðar en einnig möguleiki að hún hafi skaddast í aðgerðinni sjálfri...“

 

Aðgerðin sem framkvæmd var á kæranda X var mjaðmarskiptaliðaaðgerð. Aðgerðin sem slík heppnaðist vel og fékk kærandi bót meina sinna en afleiðingar hennar voru þær að kærandi fékk svokallaðan fellifót á vinstra fæti. Áhætta fylgir alltaf skurðaðgerðum og sjúklingar sjálfir taka alltaf vissa áhættu, en til þess að bótaskylda sé fyrir hendi þarf sjúklingur að vera talsvert verr settur eftir aðgerðina en fyrir hana. Við mat á rétti til bóta vegna sýkingar eða öðrum fylgikvilla sem er meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust segir beinlínis í 4. tl. 2. gr. að líta skuli annars vegar til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Ennfremur skuli taka mið af því hvort algengt sé að tjón verði af viðkomandi meðferð og hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

 

Þegar litið er til heilsufars sjúklings fyrir aðgerðina er það mat úrskurðarnefndar, sem meðal annars er skipuð lækni, að afleiðingar aðgerðinnar sem gerð var X hafi vissulega verið sjaldgæfur fylgikvilli, en líkurnar á því að slíkt gerist séu um 1-3%. En þrátt fyrir að um sjaldgæfan fylgikvilla sé að ræða leiði það hins vegar ekki til bótaskyldu að mati úrskurðarnefndar þar sem það vegi þyngra að hætta var á blæðingu vegna inntöku kæranda á blóðþynningarlyfjum og verða afleiðingarnar því raktar til sjúkdómsástands kæranda fyrir aðgerð. Því verður litið svo á að undirliggjandi sjúkdómsástand kæranda hafi orðið þess valdandi hvernig fór. Inntaka blóðþynningarlyfja var ekki tengd sjúklingatryggingaratburðinum heldur sjúkdómsástandi kæranda.

 

Að virtum öllum atriðum sem koma til skoðunar við mat á bótaskyldu samkvæmt 4. tl. er það niðurstaða úrskurðarnefndar að bótaskylda sé ekki fyrir hendi í tilviki kæranda. Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu er staðfest.

 

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum